Gerum Eflingu að öflugu baráttutæki verkafólks
Við erum Baráttulistinn. Við bjóðum okkur fram til formanns og stjórnar Eflingar.
Við erum hópur Eflingarfélaga sem eigum það sameiginlegt að vilja umbylta félaginu okkar. Við viljum endurvekja íslenska verkalýðsbaráttu og sýna hvers við erum megnug þegar við stöndum saman.
Öll erum við verka- og láglaunafólk sem þekkjum af eigin raun áskoranir íslenska vinnumarkaðarins. Við þekkjum atvinnumissi, fordóma gegn innflytjendum, ofurálag í umönnunargeiranum, vanvirðingu fyrir kvennastörfum og grimmd húsnæðismarkaðarins.
Við höfum öll reynslu af trúnaðarstörfum fyrir Eflingu, sem stjórnarmenn, trúnaðarmenn, meðlimir í samninganefndum og félagar í trúnaðarráði. Þannig höfum við líka öðlast beina reynslu af þeim miklu og jákvæðu breytingum sem hafa orðið í félaginu síðan 2018 undir nýrri forystu.
Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks. Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt. Skipulögð og einbeitt barátta skilar árangri. Við viljum byggja á þeim grunni og þess vegna viljum við starfa í stjórn Eflingar undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur.
Hér eru nánari upplýsingar um hvert og eitt okkar. Við hvetjum alla til að fletta í gegnum síðuna til að fræðast nánar um stefnumálin okkar og hvernig hægt er að styðja við framboðið okkar.