Fjöldi, samstaða, sýnileiki

Efling hefur á síðustu fjórum árum rutt nýja braut í kjarabaráttu á Íslandi. Ný forysta Eflingar hefur gert það að verkum að í fyrsta sinn í áratugi er hægt að tala um kjarasamningagerð verka- og láglaunafólks á Íslandi sem réttnefnda verkalýðsbaráttu.

Efling undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur hefur sýnt að lykillinn að árangri er ekki að láta kjaraviðræður í hendurnar á sérfræðingum sem makka með atvinnurekendum bak við luktar dyr. Þvert á móti þá er leiðin til árangurs að félagsmenn sjálfir séu virkir, sýnilegir og standi þétt saman í baráttu sem þeir eiga og stýra sjálfir.

Árangurinn er ótvíræður og hefur sýnt sig rækilega í kjaratölfræði síðustu ára: hin lægst launuðu hafa notið launahækkana umfram aðra.

Skóli reynslunnar í verkfallsaðgerðum og samningaviðræðum 2019-2020 hefur verið besti kennari Eflingarfélaga. Eflingarfélagar eru að mati Baráttulistans tilbúnir að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð, jafnvel þótt það ferðalag verði ekki auðvelt. Mikið verk er fyrir höndum að virkja enn stærri hópa Eflingarfélaga til þátttöku í baráttu félagsins og verður kjarasamningalotan sem hefst haustið 2022 dýrmætt tækifæri til þess. Það tækifæri vill Baráttulistinn nýta til fulls.

Baráttulistinn vill að Efling ræki hlutverk sitt sem hagsmunasamtök þar sem barátta fyrir réttindum og kjörum félagsfólks er mál málanna. Baráttulistinn vill að félagið haldi áfram að ganga fremst íslenskra stéttarfélaga í verkalýðsbaráttu og sé áfram óhrætt við að troða nýjar slóðir.