Stöðvum SALEK

Í upphafi árs 2021 vakti Efling athygli almennings á því að vinna við innleiðingu hinnar óvinsælu og úreltu SALEK-hugmyndafræði hefur haldið áfram ótrauð þrátt fyrir forystuskipti í verkalýðshreyfingunni. Kallaðist verkefnið þá „Grænbók“. Unnið er grimmt að SALEK-væðingu vinnumarkaðarins bak við tjöldin, hjá sérfræðingum í ráðuneytum og á skrifstofum heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins.

Baráttulistinn lítur svo á að verkafólk á Íslandi hafi hafnað SALEK-hugmyndafræðinni. Verka- og láglaunafólk treystir því ekki að nefnd auðvaldssinnaðra sérfræðinga sem ákvarðar “svigrúm” og útdeilir því á vinnumarkaðinn muni gæta neinnar sanngirni gagnvart hinum lægst launuðu. Slík miðstýring á launum almennings ætti, ef samkvæmni væri gætt, að kalla á sams konar miðstýringu á húsnæðisverði og verðlagningu neysluvarnings en slíkt er auðvitað ekki á dagskrá SALEK-sinna. Því er það og verður ófrávíkjanleg krafa og réttur vinnandi fólks að semja um sín kjör í krafti frjálsrar og lýðræðislegar kjarasamningsgerðar undir núgildandi lagaramma, án miðstýrðra afskipta eða takmarkana.

Staðið verði gegn áformum ríkisstjórnarinnar og afla innan verkalýðshreyfingarinnar um innleiðingu SALEK-fyrirkomulagsins. Óskoraður samningsréttur verði áfram hjá stéttarfélögum og engar takmarkanir á rétti vinnandi fólks til að semja um sín kjör með þeim tækjum sem í dag eru tryggð í lögum.

Jafnframt er því hafnað í einu og öllu að verkfallsréttur verði skertur, hvort sem það er með „standandi gerðardómi“ eins og talað er um í ríkisstjórnarsáttamála eða öðrum leiðum.

Baráttulistinn vil að Efling undirriti komandi kjarasamning með skýrum fyrirvara um að hann sé uppsegjanlegur ef Alþingi hreyfi á minnsta hátt við núgildandi lagaramma vinnumarkaðarins eða taki skref í átt að SALEK.