Lög og regla
Baráttulistinn fordæmir það ástand að ekki sé hægt að tryggja að atvinnurekendur fari eftir lágmarksákvæðum gerðra kjarasamninga. Staðan í dag er þannig að launum er stolið í milljónavís og verkafólki er einfaldlega sagt upp störfum þegar það reynir að sækja réttindi sín.
Baráttulistinn leggur þunga áherslu á að binda enda á launaþjófnað og að styrkja réttarstöðu verka- og láglaunafólks sem fer halloka inni á vinnustöðum.
Of algengt er að atvinnurekendur nýti sér hótun um uppsögn sem ögunartæki þegar verkafólk óskar eftir því að réttindi þess séu virt. Hið mikla frelsi til uppsagnar á ráðningarsambandi sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði er í dag misnotað af atvinnurekendum.
Sem viðbragð við þessu vill Baráttulistinn láta innleiða án tafar viðurlög og sektir vegna vangreiddra launa og annarra brota á ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga.
Þá vill Baráttulistinn koma á uppsagnarvernd á almenna vinnumarkaðnum, þannig að óheimilt sé að segja verkafólki upp störfum án málefnalegrar ástæðu og undangenginnar viðvörunar.