Áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar

Eflingarfélagar eru yfir 40% af félagsfólki í Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) og yfir 20% af félagsfólki í Alþýðusambandi Íslands. Efling greiðir nú yfir 130 milljónir króna á ári í félagsgjöld til SGS og ASÍ, þar af yfir 90 milljónir til þess síðarnefnda.

Áhrif Eflingarfélaga á ákvarðanatöku og stefnu þessara landssambanda eru hins vegar hvorki í samræmi við fjölda félagsmanna né þær miklu greiðslur sem þeir greiða til þeirra. Á formannafundum SGS þarf til að mynda samþykki meirihluta formanna í 19 aðildarfélögum sambandsins til að ná málum í gegn. Þetta þýðir að Efling hefur sama vægi og stéttarfélög sem eru margfalt minni, sum þeirra aðeins með nokkur hundruð meðlimi.

Baráttulistinn vill að lagt verði mat á ávinning Eflingarfélaga af þátttöku í landssamböndum verkalýðshreyfingarinnar. Þar verði horft til áhrifa Eflingarfélaga í hlutfalli við fjölda þeirra og þær háu greiðslur sem þeir greiða til sambandanna. Baráttulistinn vill einnig taka inn í myndina að hve miklu leyti landssamböndin þjóna í reynd hagsmunum verka- og láglaunafólks.