Okkar sjóðir, okkar vald

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir af vinnandi fólki í kjarasamningum og eru eign þeirra. Samt sem áður eru lífeyrissjóðir í dag undir stjórn atvinnurekenda sem hafa neitunarvald í stjórnum þeirra. Auk þess eru sjóðirnir undir ægivaldi stjórnenda og sérfræðinga. Hvort tveggja hefur leitt til valdaójafnvægis þar sem skoðanir og vilji sjóðfélaga er í aftursætinu.

Það er óþolandi að almennar leikreglur lýðræðisins séu ekki virtar í lífeyrissjóðum. Lög kveða á um að eigendur lífeyrisréttinda eru sjóðfélagar. Þótt atvinnurekendur greiði iðgjald þá gefur það þeim ekki eignar- eða yfirráðarétt yfir lífeyrissjóðum, ekki frekar en yfir þeim launum sem þeir greiða starfsfólki sínu.

Það er auk þess óþolandi að verka- og láglaunafólk haldi upp stétt forréttindafólks innan lífeyrissjóðanna sem fer frjálslega með fé sjóðfélaga í rekstrarmálum. Meðferð lífeyrissjóðsins Gildis á fjármunum félagsfólks í Init-málinu er dæmi um slíkt aðhaldsleysi, þar sem óútskýrð sjálftaka upp á hundruðir milljóna fór fram árum saman.

Settar hafa verið reglur um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóða. Framkvæmd þeirra er hins vegar alfarið háð geðþótta sjóðanna sjálfra. Hér skortir aðhald og lýðræði. Sjóðfélagar eiga að hafa leiðir til að hafa bein áhrif á ákvarðanir þar sem samfélagsábyrgð, til dæmis gagnvart hagsmunum og réttindum sjóðfélaga sjálfra, er í húfi.

Það þarf að stokka spilin upp á nýtt til að færa þetta ástand í rétt horf og stíga skref í átt að eðlilegu lýðræði. Baráttulistinn krefst þess að sjóðfélagar í lífeyrissjóðum fái í hendur tæki til beinna áhrifa á ákvarðanatöku er varðar samfélagsábyrgð og eðlilegt aðhald í rekstri án neitunarvalds atvinnurekenda.

Í þeim tilgangi vill Baráttulistinn láta leiða í lög ákvæði um beint sjóðfélagalýðræði að uppfylltum skynsamlegum skilyrðum.