Lækkum lífeyrisaldurinn
Rannsóknir sýna að lífslíkur verkafólks eru hátt í fimm árum lægri en hjá þeim sem hafa hærri tekjur og meiri menntun. Vænt ævilengd láglaunakvenna hefur þar að auki verið að minnka ár frá ári síðasta áratuginn.
Ekkert sýnir betur skaðsemi þess ofurálags sem mætir verkafólki í umönnunargeiranum, ferðaþjónustunni, byggingarvinnu og víðar styttir bókstaflega ævi sína með því að vinna störf sem þó eru samfélaginu algjörlega ómissandi. Þetta eru óhugnanlegar staðreyndir og það er furðulegt að þeim sé lítil sem engin athygli veitt.
Nýleg úttekt Seðlabankans sýnir hvernig ójöfn þróun lífslíkna leiðir til bjögunar í inn- og útgreiðslum í lífeyrissjóðakerfinu. Verkafólk sem vinnur langa starfsævi og deyr snemma fær lítið til baka af því sem það hefur greitt til sjóðanna. Á sama tíma þurfa hærra launaðir lífeyrisþegar, sem lifir æ lengur, á sífellt meiri útgreiðslum að halda sem eru í vaxandi mæli fjármagnaðar af iðgjöldum skammlífs erfiðisvinnufólks.
Þessa öfugþróun verður að stöðva. Lífeyrissjóðirnir, vinnumarkaðurinn og þjóðfélagið eiga að taka tillit til aðstæðna erfiðisvinnufólks og tryggja því sambærilegt ævikvöld og öðru launafólki. Leiðin til þess er að lækka lífeyristökualdur verka- og láglaunafólks sem unnið hefur langvinna erfiðsvinnu. Baráttulistinn vill horfa til fyrirmynda frá Norðurlöndunum þar sem einmitt þetta hefur verið gert.