Umbætur í rekstri
Baráttulistinn lýsir ánægju með þær breytingar á skipuriti og skipulagi skrifstofu Eflingar sem gerðar voru eftir stjórnarskipti árið 2018.
Sem bein afleiðing af því hefur þjónusta skrifstofunnar við félagsfólk stórbatnað og stigin hafa verið risavaxin skref í átt að umbreytingu félagsins í raunveruleg baráttusamtök. Ný forysta sem tók við árið 2018 stóð við fyrirheit um þessar breytingar og Baráttulistinn vill að haldið verði áfram á þeirri braut.
Áframhaldandi umbætur í starfsmannamálum
Baráttulistinn vill að umbótum í starfsmannamálum á skrifstofu Eflingar verði haldið áfram. Tekið verði upp gagnsætt launakerfi og tækifærið nýtt til lögboðinnar innleiðingar á jafnlaunavottun. Vinnu við ítarlega starfsmannahandbók og yfirferð starfslýsinga verði lokið.
Stjórn fái reglulega heildarmynd af stöðu starfsmannamála, svo sem niðurstöðum starfsánægjukannana og tölum yfir launakostnað, stöðugildi og starfsmannaveltu. Mönnunarþörf starfseminnar verði metin reglulega. Stjórn fjalli um og veiti samþykki fyrir stefnumarkandi ákvörðunum í starfsmannahaldi, svo sem launakerfi, starfsmannastefnu og starfsmannahandbók.
Byggð verði upp heilbrigð vinnustaðamenning sem tekur tillit til eðli starfseminnar og teiknaður upp ítarlegur sáttmáli um góð samskipti innan vinnustaðarins.
Enn meiri framfarir í þjónustu og aðgengi
Tekist hefur að stórefla rafræna þjónustu við félagsfólk í gegnum Mínar síðar og vefsíðuna www.efling.is. B-listinn vill að haldið verði áfram á þeirri braut og öll þau tækifæri nýtt til hagræðingar í rekstri sem þannig skapast. Skipulag skrifstofunnar verði þróað í samræmi við aukinn hlut rafrænnar þjónustu og hæfni starfsfólks til að sinna nýjum og breyttum verkefnum tryggð.
Haldið verði áfram á þeirri braut að sem mest af efni frá skrifstofu félagsins sé þýtt eða túlkað jafnóðum á tungumál sem félagsfólk skilur.
Skýrari verkaskipting milli stjórnar og stjórnenda
Baráttulistinn vill að ábyrgð faglega ráðinna yfirstjórnenda á daglegum rekstri skrifstofu Eflingar verði áréttuð og skýrð. Þetta verði endurspeglað í lögum félagsins, byggt á fyrirmyndum annarra íslenskra stéttarfélaga á borð við VR. Úrelt ákvæði um beina ábyrgð stjórnarmanna á starfsmannahaldi (t.d. 11. grein) verði felld út úr lögum Eflingar.
Stjórn setji sér starfsreglur um aðkomu hennar að rekstraramálum, þar með talið áætlanagerð og eftirlit, þar sem skýrt verði með hvaða hætti stjórn sé upplýst um rekstrarmál og hvernig hún veiti aðhald varðandi þau.
Fagleg vinnubrögð í fjármálum
Baráttulistinn styður þau vinnubrögð sem innleidd voru eftir 2018 að rekstrar- og fjárhagsáætlun hvers árs sé kynnt, rædd og samþykkt að hausti árið á undan. Útgjöld innan þess ramma sem þar er settur krefjist ekki sérstakrar umræðu eða samþykktar í stjórn. Baráttulistinn vill jafnframt að uppgjör hvers ársfjórðungs sé kynnt fyrir stjórn ásamt frávikagreiningu.